05 December 2010

Þegar ég drap jólasveininn


Ein jólin bjuggum við Jóhanna og Daníel í rauðu húsi neðan til við Hjallaveginn á Suðureyri. Það vantaði allt jólaskraut á húsið svo ég fékk Einar vin minn til að hjálpa mér að bjarga því. Við fundum til einn brúnan strigapoka, gömul Nokia stígvel tvær spítur og rautt efni. Stígvélin voru nelgd í gegnum hælinn við spýturnar sem voru vafðar með rauðu efni. Strigapokinn var fylltur af plast rusli og bundinn við spýturnar. Þá var tilbúinn neðri hlutinn af sveinka. Við príluðum upp á þak og tróðum sveinka greyinu öfugt ofan í skorsteininn svo lappir og pokinn stóðu upp úr. Fátt eitt annað var rætt meðal barnanna í þorpinu næstu daga en hvernig ætti að bjarga sveinka. Fram yfir jól sat sveinki greyið fastur í skorsteininum. Einn mánudag þagar börnin áttu að vera í umsjón skólayfirvalda fór ég upp á þak tosaði sveinka með afli upp úr skorsteininum svo hann rann niður þakið og lá grafkyrr á jörðinni fyrir neðan húsið. Nokkrum dögum seinna fréttum við að ég hafi drepið sveinka því einn ungur drengur var veikur heima hjá sér og sá meðferðina á sveinka út um stofugluggann.

No comments: